Á bæjarráðsfundi áðan voru lögð fram drög að fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar. Þar kom fram að ný Hamarshöll muni kosta 1 milljarð króna, skv. áætlun fyrir næstu 3 ár. Semsagt það má reikna með að Hamarshöllin verði fullkláruð eftir 3 ár.
Ósannindi
Fulltrúar O-listans hafa farið fram með ósannindi frá því fyrir kosningar, í kosningabaráttunni og eftir kosningar þar sem fulltrúar O-listans hafa haldið því fram í upptökum frá bæjarstjórnarfundum og á íbúafundi að ný fullbyggð Hamarshöll myndi kosta 260-400 milljónir króna og að þau væru með aðila sem gætu byggt slíka höll fyrir þessar upphæðir og að höllin gæti orðið fullkláruð í nóvember á þessu ári sem seinna breyttist í nóvember 2023. Þarna var greinilega logið að kjósendum í Hveragerði.
Leyndarhyggja
Það ríkir svo mikil leyndarhyggja yfir gögnum um nýja Hamarshöll að meirihlutinn getur ekki látið okkur fulltrúum D-listans né bæjarbúum í té þau gögn sem verkfræðistofan og arkitektastofan hafa lagt fram. Þegar ég óskaði eftir þessum gögnum á bæjarráðsfundi bókaði meirihlutinn „Líkt og kemur fram í fundargerð voru tillögur kynntar á fundinum en engin gögn lögð fram.“ Við lögðum þess vegna fram kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál en þegar sú kæra var lögð fyrir bæjarstjórn voru skyndilega til gögn, því bæjarstjóra og lögmönnum var falið að senda öll gögn til úrskurðarnefndarinnar. Í stað þess að gera gögnin opinber þá sendi lögmannsstofan fyrir hönd bæjarins úrskurðarnefndinni umsögn, sem voru heilar 4 bls., um það að lögmönnum þessum fyndist ekki ástæða til að afhenda gögnin, sem greinilega eru þó til. Þau hefðu betur getað sparað lögfræðingakostnaðinn og afhent gögnin.
Samráðsleysi
Boðað var til fundar í október fyrir alla bæjarfulltrúa, meiri- og minnihluta, og stjórn íþróttafélagsins um uppbyggingu Hamarshallar þar sem kynna átti hugmyndir sem fram væru komnar og það auglýst á vef bæjarins. Þessum fundi var síðan tvívegis frestað og hefur ekki enn verið til hans boðað. Það kom síðan mjög á óvart að sjá að bæjarfulltrúar meirihlutans boðuðu fund með stjórn íþróttafélagsins, fulltrúar D-listans fengu ekki boð, þar sem þeim var kynnt hugmyndir frá verkfræðingum og arkitektastofu að uppbyggingu Hamarshallar.
Þessi vinnubrögð eru sérstaklega einkennileg í ljósi þess að O-listinn talaði mikið um það fyrir kosningar að öll stjórnsýslan ætti að vera svo vönduð og gagnsæ, en það fer ekki mikið fyrir þessum orðum núna.
Comments